2. mars hélt 10. bekkur í fyrirtækjaheimsóknir á svæðinu.
Fyrst heimsóttu þau Friðheima og fengu kynningu á uppbyggingunni og starfseminni þar: garðyrkjunni, hestamennskunni og ferðaþjónustunni. Þar tóku Knútur og Helena á móti nemendum með kostum og kynjum og fengu þau m.a. að bragða heilsudrykk úr grænum tómötum og engifer og í lok kynningarinnar fengu þau tómatsúpu og brauð eins og hver gat í sig látið.
Næst lá leiðin í Flúðasveppi á Flúðum. Þar tók Eiríkur framleiðslustjóri á móti krökkunum og fræddi þau um uppbyggingu fyrirtækisins, líffræði sveppa og starfsemina. Heimsóknin var mjög fróðleg og skemmtileg og mikil upplifun fyrir öll skilningarvit.
Að lokum var farið á Geysi. Við vorum nokkuð á undan áætlun og nýttum því tímann í ganga um hverasvæðið.
Við fengum höfðinglegar móttökur á Geysi. Öllum var boðið í mat að eigin vali og á eftir fylgdi Kristján framkvæmdastjóri Glímu á Geysi okkur um svæðið og sýndi okkur starfsemina. Hún er sannarlega fjölbreytt og standa miklar framkvæmdir yfir á Geysi. Verið er að byggja nýtt hótel með 77 herbergjum og gera tilheyrandi breytingar á eldra húsnæði. Kristján leiddi okkur um svæðið, sýndi okkur veitingasölu, minjagripaverslun, aðstöðu starfsfólks, gisti- og veisluaðstöðu.
Við fengum alls staðar frábærar móttökur og þökkum kærlega fyrir okkur!