Norræna skólahlaupið verður þriðjudaginn 8. september eftir hádegi

Stefnt er að því að hlaupa norræna skólahlaupið þriðjudaginn 8. september eftir hádegi.  Veðurspáin fyrir daginn er ágæt, en þó þarf að huga að því að nemendur séu klæddir til að hlaupa utandyra þennan dag.

Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. Mjólkursamsalan, MS, hefur frá upphafi styrkt útgáfu viðurkenningarskjala á myndarlegan hátt og samstarfsaðili að þessu verkefni er Íþróttakennarafélag Íslands.

Í ár er hlaupið styrkt af verkefninu European Week of Sport og af því tilefni verður bryddað upp á þeirri nýjung að draga út þrjá þátttökuskóla sem ljúka hlaupinu fyrir 30. september og skila inn skilagrein til ÍSÍ. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.

Close Menu